|
Description:
|
|
Því miður hefur ákveðinn vandræðagangur gjarnan fylgt því hvernig heimilisofbeldismál eru meðhöndluð innan kerfisins, hvort þau eru skráð, hver viðbrögðin eiga að vera og á hverra forræði. Nýverið var útbúin skýrsla um samræmt verklag innan heilbrigðisþjónustunnar þegar kemur að móttöku þolenda heimilisofbeldis. Þetta er eitthvað sem heilbrigðisstarfsfólk hefur kallað lengi eftir, enda sýna rannsóknir að nánast daglega leita fólk sér heilbrigðisþjónustu vegna heimilisofbeldis. Við ræðum við skýrsluhöfund og formann starfshóps um málið, Drífu Jónasdóttir afbrotafræðing. Það birtist áhugaverð grein í Læknablaðinu nýlega þar sem fjallað er um það sem kallað er skyndilegt góðkynja tímabundið minnisleysi. Það er þegar fólk lendir í því undarlega ástandi að mynda ekki nýjar minningar, oftast í nokkrar klukkustundir í senn, er illa áttað og man ekki jafnvel nokkrar vikur aftur í tímann. Það lagast svo yfirleitt á 4-6 klukkustundum. Og það eru nokkrir tugir slíkra tilvika skráðir á hverju ári á bráðamóttöku Landspítalans. Auður Gauksdóttir læknanemi er annar höfunda þessarar greinar og hún ætlar að segja okkur meira um þetta. Við tökum einnig stöðuna á loftlagsráðstefnunni í Egyptalandi sem er nú í fullum gangi, Málfarsmínúta er á sínum stað og svo kemur safnstjóri RÚV, Helga Lára Þorsteinsdóttir til okkar, og við heyrum úr þættinum Eftir hádegið sem var á dagskrá í sjöunni, þar sem þáttastjórnandi hringdi af handahófi í fólk, spjallaði við það og leyfði því að velja óskalag. |